Fara í efni

Vélasvið HEKLU afhendir stærstu jarðýtu landsins:

Jarðýtan vegur samtals 117 tonn og leysir af hólmi tvær 50 tonna vélar í Vatnsskarðsnámum við Kleifarvatn. Jarðýtan vegur samtals 117 tonn og leysir af hólmi tvær 50 tonna vélar í Vatnsskarðsnámum við Kleifarvatn. Jarðýtan vegur samtals 117 tonn og leysir af hólmi tvær 50 tonna vélar í Vatnsskarðsnámum við Kleifarvatn. Stærsta jarðýta sem nokkru sinni hefur verið flutt til landsins, af gerðinni Caterpillar D11R og vegur samtals 117 tonn, var flutt í lögreglufylgd sl. föstudagskvöld frá vélasviði HEKLU við Klettagarða að Vatnsskarðsnámum við Krísuvík þar sem hún verður notuð við efnisvinnslu.

Til að koma þessu tröllvaxna atvinnutæki á áfangastað var notaður stærsti tengivagn sem til er hérlendis og öflugasti dráttarbíll landsins, af gerðinni Scania R580 Heavy Haulage með 250 tonna dráttargetu, hvort tveggja í eigu ET flutninga. Heildarlengd ækisins, þ.e. dráttarbílsins og vagnsins með jarðýtunni á, var um 30 metrar og þunginn samtals tæp 160 tonn og deildist hann niður á 13 hásingar. Ýtutönnin, sem vegur tæp 19 tonn, var flutt í annarri ferð ástamt veltiboga ýtunnar því annars hefði jarðýtan rekist upp undir brýr á leiðinni.

Til stóð að flytja jarðýtuna, sem gengur undir nafninu Skessan meðal starfsmanna vélasviðs HEKLU, í byrjun síðustu viku en fresta þurfti flutningnum um nokkra daga af tæknilegum ástæðum. Lagt var af stað frá Klettagörðum um kl. 20:30 á föstudagskvöldinu og ekið um Klettagarða og Sæbraut, undir Miklubraut, og suður Reykjanesbraut um Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð og áfram sem leið liggur að Vatnsskarðsnámunum. Tók flutningurinn um 1½ klukkustund og gekk áfallalaust fyrir sig. Á, laugardag var tönnin og veltiboginn sett á jarðýtuna og hún gerð klár til notkunar.

Það er fyrirtækið Alexander Ólafsson ehf. sem kaupir CAT D11R jarðýtuna og er aðeins vitað um eina slíka vél á hinum Norðurlöndunum og það eru einungis 10-15 þannig jarðýtur í allri Evrópu. Því vakti salan hér umtalsverða athygli framleiðandans, að sögn Ásmundar Jónssonar, framkvæmdastjóra vélasviðs HEKLU.

„Það var nú talað um það sem “mission impossible” að markaðssetja þessa jarðýtu hér á landi og því er ekki að neita að þeir voru ansi hissa í höfuðstöðvum Caterpillar í Bandaríkjunum þegar staðfesting kom frá okkur um pöntun á D11R fyrir íslenskan verktaka,“ segir Ásmundur.

„Þetta er alvöru tæki og við bindum miklar vonir við að geta bæði hagrætt í rekstrinum og samtímis aukið afköstin á námasvæðinu okkar við Kleifarvatn,“ segir Ellert Alexandersson, framkvæmdastjóri Alexanders Ólafssonar ehf. „Við erum núna með þrjár 50 tonna jarðýtur þarna og á nýja vélin að leysa af hólmi tvær þeirra.“

Helstu stærðir
CAT D11 jarðýtan vegur samtals um 117 tonn, þar af er tönnin sjálf um 18,8 tonn og „ripperinn“ vegur með öllu rúm 10 tonn. CAT D11R er yfir fimm metrar að hæð með veltibogum og 2,6 metrar eru frá jörðu upp í efri brún á beltagangi. Ýtutönnin er yfir sex metra breið og tæpir þrír metrar á hæð og getur rutt á undan sér ríflega 34 rúmmetrum af jarðvegi. Vélarafl CAT D11R er 698kW eða 935 hestöfl undir fullum afköstum.