Fara í efni

Touareg dregur 155 tonna Boeing 747 breiðþotu

Getur Volkswagen Touareg dregið 155 tonna Boeing 747 breiðþotu?Getur Volkswagen Touareg dregið 155 tonna Boeing 747 breiðþotu?Getur Volkswagen Touareg dregið 155 tonna Boeing 747 breiðþotu? Orð eru til alls fyrst. Það geta tveir starfsmenn Volkswagen staðfest en þeir ræddu um það sín á milli hvort Touareg V10 dísiljeppinn væri nægilega öflugur til þess að draga Boeing 747 breiðþotu sem vegur 155 tonn – 155.000 kíló! Samtal þeirra spurðist út og fáeinum mánuðum síðar var ákveðið að ganga úr skugga um álitaefnið á Dunsfold flugvellinum í Englandi.

Skemmst er frá því að segja að jeppinn fór létt með að draga öll 155 tonnin. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hvort yfirmenn á flugvellinum ætli að skipta út 70 tonna dráttartrukkum, sem eru sérstaklega hannaðir til flugvéladráttar, fyrir Touareg jeppa, jafnvel þótt það þýddi umtalsverðan eldsneytissparnað á ársgrundvelli.

Touareg er vissulega gerður fyrir mikla dráttargetu. Hámarksþyngd á eftirvagni er 3.500 kg sem er það sem margir þurfa á að halda til að draga hestakerrur eða báta hvert á land sem er. En það þarf talsverðan undirbúning og aðgætni þegar aftanívagninn er ekki hestakerra heldur 155 tonna farþegaþota með 511 fermetra vænghafi, fjórum hreyflumm, 450 sætum og skrokk sem er á stærð við íbúðarblokk.

Nauðsynlegt reyndist að þyngja Touareg jeppann áður en hafist yrði handa við dráttinn. Það hljómar kannski þversagnakennt en er engu að síður grundvallaratriði til að breyta vélaraflinu í “propelling force”. Bíllinn var þyngdur með stálkúlum og stálplötum. Aukaþyngdin var 4.345 kg og heildarþyngd Touareg jeppans því komin upp í 7.030 kg. Þyngdardreifingin var 2.755 kg á framás og 4.275 kg á afturás.

Aðrar tilfæringar voru minniháttar. Minni sjálfskiptingin úr Touareg V8 bensínbílnum var sett í bílinn í stað V10 TDI sjálfskiptingarinnar. Loftþrýstingur í Michelin dekkjunum var hækkaður í 4,5 bör. Og að endingu var hámarkshraði bílsins færður niður – ekki af ótta við að hann drægi farþegaþotuna á loft heldur til þess að verja hjólbarðana. Allt annað, allt frá vél að fjöðrunarkerfi og fjórhjóladrifi, var eins og í fjöldaframleiddu gerðinni af Touareg V10 TDI.

Verkfræðingar Volkswagen höfðu reiknað út að miðað við gírhlutföll og snúningsvægi vélarinnar, sem er að hámarki 750 Nm, gæti bíllinn komið 200 tonnum á hjólum á hreyfingu. Hlutföllin voru engu að síður mjög undarleg 1,7 metra hár og 4,75 metra langur bíll að draga 19,4 metra háa og yfir 70 metra langa farþegaþotu, og slagveðursrigning í kaupbæti.

Uwe Krieghoff tæknimaður hjá Volkswagen settist undir stýri. Hann ræsti vélina og stillti stjórnhnappinn fyrir fjórhjóladrifið á milli framsætanna á “LOW”. 50% af snúningsátakinu var nú deilt til framhjólanna og 50% til afturhjólanna. Krieghoff setti í annað þrep í sjálfskiptingunni með handskiptivalinu, gaf vélinni hægt inn og einbeitti sér að því að hnika “18 head-height” hjólunum á 747-þotunni úr kyrrstöðu á hreyfingu. Mesta aflið var nauðsynlegt á þessum fyrstu fáeinu sekúndum. Um leið og tækist að koma hreyfingu á beislið yrði hægt að draga þotuna. En það eina sem hreyfðist í fyrstu var nálin á vélarsnúningsmælinum. Krieghoff hélt áfram að auka inngjöfina þar til hún var komin hálfa leið niður að gólfi. Án þess að svo mikið sem vottaði fyrir skorti á gripi fór Touareg-jeppinn og farþegaþotan að mjakast af stað. Þegar Krieghoff hafði dregið breiðþotuna 150 metra vegalengd lét hann gott heita.

Við rannsókn á Touareg jeppanum eftir risadráttinn fundust engin ummerki um skemmdir. Allt var í stakasta lagi.

Ný kynslóð Touareg er nú til pöntunar og kemur jeppinn búinn ESP plus dráttarstýribúnaði sem dregur verulega úr hættu á því að aftanívagn skrensi til hliðanna í drætti vegna rangrar hleðslu eða hraðaksturs. Ekki reyndi á kerfið í drættinum á breiðþotunni enda var hámarkshraðinn eingöngu 8 km/klst.